Landgræðslan, Olís og Hekluskógar standa nú fyrir landssöfnun á birkifræjum. Söfnunin er liður í verkefni sem snýr að endurheimt birkiskóga, en þeir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í uppgræðslu lands og kolefnisbindingu.

Söfnun birkifræs er góð ástæða til að komast út og njóta fallegra haustdaga. Auk þess er fræsöfnun prýðileg fjölskylduskemmtun og er full ástæða til að hvetja vinnustaði til að fara í fræsöfnunarferðir. Nöfn þeirra sem skila inn fræjum fara í pott og einn heppinn fræsafnari gæti átt von á veglegum vinningi – gistingu fyrir fjóra í deluxe-herbergi á Hótel Húsafelli með þriggja rétta máltíð og morgunverði, ásamt aðgangi að sundlaug.

Við hvetjum fræsafnara til að deila myndum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #birkifræ.

Hvernig gengur tínsla fyrir sig

Söfnunarpokar eru fáanlegir á Olís-stöðvum um allt land og stöðvarnar taka við pokunum að söfnun lokinni. Á pokunum, sem eru úr pappír, eru prentaðar upplýsingar um það hvernig best er að safna fræi. Vorið 2020 verður fræinu dreift víða um land.

Þeir sem ekki eiga þess kost að safna fræinu í umrædda pappírspoka eru beðnir um að nota taupoka – og skila þeim á Olísstöðvar ásamt upplýsingum um hvar fræinu var safnað. Átakinu lýkur um miðjan október og þá verður dregið úr nöfnum þeirra sem söfnuðu fræi og vegleg, umhverfisvæn verðlaun veitt.

Skráning og geymsla

Eyðublöð fylgja pokunum en þar þarf að koma fram nafn þess sem safnaði eða nafn hóps. Einnig þarf að merkja við þann landshluta sem fræinu var safnað í, þar sem ekki er talið ráðlegt að blanda saman mismunandi ættstofnum birkis milli landshluta.

Fræið þarf að vera þurrt í pokunum og best er að koma pokunum sem fyrst á söfnunarstaði. Ef söfnunarpokum er ekki skilað inn strax þarf að geyma þá í kæli.

VIÐ TÖKUM Á MÓTI FRÆJUNUM Á EFTIRFARANDI OLÍS-STÖÐVUM

REYKJAVÍK OG NÁGRENNI

Álfheimar
Norðlingaholt

ALLT LANDIÐ

Akureyri
Borgarnes
Fellabær
Hella
Húsavík
Höfn
Reyðarfjörður
Selfoss