Glans

Glans skilmálar

Skilmálar fyrir áskrift að Glans

1.            Um þetta skjal

1.1.         Þetta skjal inniheldur þá skilmála (hér nefndir áskriftarskilmálarnir) sem gilda þegar viðskiptavinur okkar (hér nefndur viðskiptavinur eða þú) kaupir og nýtir áskrift að sjálfvirku bílaþvottastöðvum okkar, Glans (hér nefndar Glans). Netfang Glans er glans@glans.is. Glans er starfrækt af okkur, Olís ehf., kt. 500269-3249 (hér nefnt seljandi eða við), Skútuvogi 5, 104 Reykjavík, s. 515 1000. Við sérhæfum okkur í sölu og þjónustu með eldsneyti og aðrar olíuvörur, auk skyndibita, ýmissa nauðsynjavara fyrir bílaeigendur ásamt fjölþættri þjónustu við sjávarútvegs-, verktaka- og flutningafyrirtæki um land allt. Við erum í eigu íslenska hlutafélagsins Hagar hf., kt. 670203-2120.

1.2.         Í áskriftarskilmálunum er fjallað um skilyrði þess að kaupa áskrift að og nota Glans, gera breytingar á áskriftinni, auk ýmissa annarra atriða um hana.

1.3.         Til þess að geta virkjað áskrift að Glans þarft þú áður, í Olís – ÓB smáforritinu okkar (hér nefnt smáforritið), sem hægt er að hlaða niður í Apple App Store (fyrir iPhone) eða Google Play Store, að staðfesta að hafa kynnt þér vandlega og samþykkt áskriftarskilmálana. Til þess að geta notað smáforritið þarft þú fyrst að staðfesta að hafa kynnt þér vandlega og samþykkt skilmála smáforritsins, svo sem um vinnslu persónuupplýsinga í því.

1.4.         Notkun Glans er með öllu óheimil nema í samræmi við ákvæði áskriftarskilmálanna.

1.5.         Þú berð ábyrgð á að uppfæra skráningu í smáforritinu hverju sinni á netfangi þínu, heimilisfangi og greiðslumiðli svo við getum átt í samskiptum um kaup þín og skuldfært gjöld fyrir áskriftina á réttan greiðslumiðil.

1.6.         Áskriftarskilmálarnir eru ávallt aðgengilegar í smáforritinu eða á vefsíðu Glans, glans.is. Við áskiljum okkur rétt til að breyta skilmálunum án fyrirvara. Í lok þeirra kemur ávallt fram hvenær núgildandi útgáfa tók gildi til þess að þú getir séð hvort þeir hafi breyst frá því að þú samþykktir þá síðast þegar þú notaðir Glans.

2.            Áskrift að Glans

2.1.         Hægt er að kaupa bílaþvott í Glans annað hvort í hvert skipti fyrir sig eða í áskrift. Þessir skilmálar gilda um kaup og notkun áskrifta að Glans.

2.2.         Hægt er að kaupa og virkja áskrift að Glans í smáforritinu. Einnig er hægt að greiða fyrir áskrift á hvaða sjálfvirku bílaþvottastöð Glans sem er og fá þar fyrsta bílaþvottinn en til að fá fleiri þvotta í áskriftinni þarf fyrst að virkja hana í smáforritinu. Upplýsingar um áskriftarleiðir og verð fyrir þær á hverjum tíma er að finna á bílaþvottastöðvum Glans og í smáforritinu.

2.3.         Þegar áskrift að Glans er keypt hefst fyrsta tímabil áskriftarinnar. Hvert áskriftartímabil er 30 dagar og er heimilt að nota þvottastöðvarnar að vild innan tímabilsins. Greitt er fyrir hvert tímabil fyrirfram með þeim greiðsluleiðum sem boðið er upp á hverju sinni, svo sem greiðslukorti. Áskrift endurnýjast í lok hvers tímabils um eitt tímabil í senn. Þremur dögum fyrir lok tímabils er sú greiðsluleið sem þú hefur gefið upp til að greiða fyrir áskriftina skuldfærður fyrir næsta tímabil á því verði sem þá gildir fyrir áskriftarleiðina. Takist skuldfærsla ekki, svo sem vegna læsingar eða ónógrar inneignar, er reynt að skuldfæra aftur síðar. Hafi skuldfærsla ekki tekist í lok áskriftartímabils óvirkjast áskriftin og ef skuldfærsla fyrir hinu nýja tímabili hefur enn ekki tekist nokkrum dögum síðar þá lítum við svo á að áskriftinni hafi verið sagt upp og hættum að reyna skuldfærslu.

2.4.         Áskrift að Glans er ávallt bundin tilteknum bifreiðum, einni eða fleiri, eftir tegund áskriftar. Einungis ein áskrift er gild fyrir hverja bifreið í senn. Óheimilt er að nota áskrift að Glans fyrir aðrar bifreiðir en þær sem eru skráðar í áskrift á hverjum tíma.

2.5.         Eftir að áskrift hefur verið virkjuð er hún notuð með því einfaldlega að aka bifreið, sem er skráð í áskriftina, að innakstursdyrum á einhverri af sjálfvirkum bílaþvottastöðum Glans. Þar les þar til gerð myndavél bílnúmer framan á bifreiðinni og opnar dyrnar. Það er því á þína ábyrgð að hafa rétt bílnúmer á bifreiðinni sem óskað er eftir þvotti á og að númerið sé heilt og læsilegt en ekki t.d. hulið snjó eða óhreinindum.

2.6.         Þér er einungis heimilt að nota Glans fyrir bifreið sem þú hefur ótvíræðan yfirráðarétt yfir, svo sem ef þú ert skráður eigandi hennar og eingöngu ef þú hefur gild ökuréttindi hér á landi.

2.7.         Þér ber ávallt að fara í hvívetna að þeim leiðbeiningum og reglum sem gilda um notkun bílaþvottastöðva Glans og eru birtar þar á skjá, skiltum eða eru gerðar viðskiptavinum aðgengilegar á annan hátt, svo sem um að hafa allar rúður bifreiðar skrúfaðar upp og dyr lokaðar á meðan á þvotti stendur og hvort og hvenær beri að hemla eða aka af stað, drepa á eða ræsa bifreið og setja bifreið í hlutlausan gír. Þá er alfarið óheimilt að reyna að nota Glans fyrir bifreið sem er stærri en hámarksstærð viðkomandi þvottastöðvar eða bifreið sem er með óhefðbundinn utanáliggjandi aukabúnað eða breytingar. Mikilvægt er að þú hafir í huga að farir þú ekki að öllum þessum leiðbeiningum og reglum eða hagir þér ógætilega í Glans kann það að hafa í för með sér tjón á eignum eða jafnvel líkamstjón. Við berum enga ábyrgð á tjóni sem rakið verður til slíkrar vanrækslu þinnar. Þá skal sérstaklega tekið fram að Glans er ekki ætlað til notkunar fyrir bifreiðir með neins konar lausahlutum, svo sem þakbogum, viðbættum speglum eða dráttarkrókum og berum við enga ábyrgð á tjóni sem hlýst af slíkri notkun, hvorki á viðkomandi bifreið, lausahlutum eða öðru. Þú berð ábyrgð á bæði beinu og afleiddu tjóni okkar af því að þú vanrækir skyldur þínar samkvæmt skilmálum þessum.

2.8.         Með því að samþykkja skilmála þessa samþykkir þú að halda okkur, starfsfólki okkar, verktökum, stjórnendum, eigendum og samstarfsaðilum að fullu og öllu skaðlausum af hvers kyns kröfum, svo sem um miskabætur eða skaðabætur, sem kunna að rísa í tengslum við háttsemi þína í eða við bílaþvottastöðvar Glans.

2.9.         Eftir að ekið er inn í bílaþvottastöð Glans taka öryggismyndavélar upp ferðalag bifreiðarinnar í gegnum stöðina í öryggis- og eignavörsluskyni, þar á meðal til að hægt sé að upplýsa ef óhapp verður við þvottinn og miðla slíku myndefni t.d. til lögreglu eða tryggingarfélags. Á skiltum fyrir utan og við inngang að stöðvunum er vakin athygli á rafrænni vöktun í Glans og vísað á hvar frekari fræðslu er að finna um hana. Nánari upplýsingar um vöktunina má einnig nálgast á vefsíðu Glans, sbr. 1.6 hér að framan.

2.10.      Á hverjum tíma kunnum við að bjóða upp á fleiri en eina tegund af áskriftarleiðum, til dæmis eftir fjölda bifreiða. Á hverjum tíma kann að vera hægt að gera ákveðnar breytingar á áskriftinni, svo sem að skipta um áskriftarleið eða færa áskrift af einni bifreið á aðra, en að öðrum kosti þarf að hafa samband við okkur á netfang Glans eða í símanúmer okkar, sbr. 1.1 hér að framan.

2.11.      Við starfrækjum á hverjum tíma eina eða fleiri bílaþvottastöðvar undir merkjum Glans og áskiljum okkur rétt til að breyta opnunartíma þeirra, fjölga þeim, færa þær eða fækka þeim án fyrirvara. Þó að við breytum opnunartíma, leggjum niður, fækkum eða færum stöðvar, þá hefur það ekki áhrif á gildi áskrifta að Glans eða verð fyrir þær.

3.            Lok áskriftar

3.1.         Áskrift þín að Glans er í gildi ótímabundið, farir þú að áskriftarskilmálunum. Í smáforritinu getur þú sagt upp áskriftinni. Hún rennur þá út í lok þess áskriftartímabils sem hefur síðast verið greitt fyrir sbr. grein 2.3. hér að framan og ekki verður skuldfært fyrir fleiri áskriftartímabilum. Ekki er endurgreitt fyrir það sem eftir lifir af áskriftartímabili.

3.2.         Okkur er heimilt að segja áskrift viðskiptavinar upp án fyrirvara og meina honum um aðgang að bílaþvottastöðvum Glans, svo sem ef hann brýtur gegn áskriftarskilmálunum, veldur tjóni á Glans eða reynir að nota Glans án þess að greiða fyrir, en einnig ef við gerum breytingar á Glans eða leggjum niður þjónustuna. Valdi viðskiptavinur okkur tjóni þá áskiljum við okkur rétt til að krefja hann um skaðabætur.

4.            Gildandi lög, samningsvarnarþing og útgáfa skilmálanna

4.1.         Ef þú ert einstaklingur og kaup þín á áskrift að Glans eru ekki í atvinnuskyni eða í tengslum við starf þitt þá ganga ákvæði laga um þjónustukaup, nú nr. 42/2000, framar ákvæðum skilmála þessara en að öðrum kosti ekki.

4.2.         Um áskriftarskilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi dómsmál um ágreining milli aðila í tengslum við þá skal það mál rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

4.3.         Seljanda er allt að einu heimilt að leita aðstoðar dómstóla og stjórnvalda hvar í heimi sem er til framkvæmdar aðfarargerða eða annarra sambærilegra ráðstafana til að tryggja réttindi sín og fá skyldur samkvæmt áskriftarskilmálunum uppfylltar.

4.4.         Þessi útgáfa áskriftarskilmálanna er frá 24. febrúar 2025 og gildir um öll kaup og notkun á áskriftum að Glans sem eiga sér stað frá og með þeim degi.