Landgræðsla
Um fjórðungur losunar gróðurhúsaloftegunda á heimsvísu er vegna eyðingar gróðurs og jarðvegs. Óvíða er slík eyðing meiri en á Íslandi. Þess vegna er mikilvægt að græða upp land þar sem gróðureyðing hefur orðið og breyta kolefnisbúskap gróðursnauðra svæða þannig að þau fari að binda kolefni.
Skógrækt
Skógareyðing veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Á heimsvísu er lögð áhersla á endurheimt skóga til að auka bindingu kolefnis. Í starfi Lands og skógar er lögð vaxandi áhersla á endurheimt birkiskóga. Birki byrjar að mynda fræ um áratug eftir gróðursetningu og breiðist síðan hratt út með sjálfgræðslu. Endurheimt birkis er því hagkvæm leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Votlendi
Í votlendi og mýrum geymast lífrænar plöntuleifar sem ekki rotna. Votlendi er því mikilvæg geymsla kolefnis. Þegar skurður er grafinn í votlendi lækkar vatnsstaðan, súrefni kemst niður í svörðinn, kolefnið í mýrinni losnar og berst út í andrúmsloftið. Þegar fyllt er í skurði hækkar vatnsstaðan og kolefnislosun mýrarinnar stöðvast. Þess vegna vinnum við að endurheimt votlendis.