Rafgeymar
99% af hráefni í rafgeymum bíla má endurvinna. Rafgeymar innihalda plast, sýru og þungmálma sem mikilvægt er vinna rétt úr. Endurvinnsluhlutfall rafgeyma er sem betur fer gríðarlega hátt um allan heim. Rétt förgun spilliefna er lykilatriði og þegar rafgeymar eiga í hlut eignast nánast hver einasta arða nýtt líf ef rétt er farið að.
Ísland hefur sett sér það markmið að 65% alla rafhlaða og rafgeyma skuli endurunnin í lok árs 2020. Undanfarinn áratug hefur verið unnið að því að hækka jafnt og þétt endurvinnsluhlutfall rafhlaða og rafgeyma. Í dag er hlutfallið milli 50–60% en það rokkar örlítið milli ára.
Rafgeymar bíla innihalda brennisteinssýru, þungmálma og plast. Við endurvinnslu þeirra er plastið þrifið og tætt í litlar perlur sem nýtast til framleiðslu á nýju plasti. PH-gildi sýrunnar er hækkað og hún gerð óvirk. Endurunna sýruna má nota í textíl- og gleriðnað svo dæmi séu tekin. Í rafgeymum eru þungmálmar sem flokkaðir eru frá öðru hráefni og í flestum tilvikum notaðir í nýja rafgeyma. Um 80% af notuðum rafgeymi má nota til að búa til nýjan geymi. 99% af geyminum má eins og áður segir endurvinna.
Algengast er að sýran sé nýtt til iðnaðar en í sumum tilvikum er natríumsúlfat unnið úr sýrunni sem er svo notað við sápu- og þvottaefnisgerð.
Blý og þungmálmar eru skaðlegir heilsu manna og dýra og hafa verið tengdir við raskanir í taugakerfinu. Blýmengun hefur minnkað umtalsvert í heiminum síðan sölu á blýblönduðu bensíni var hætt á tíunda áratugnum.
Fram til 1974 voru flestar bílvélar með það sem kallast mjúk ventlasæti. Blýi var bætt í bensín til að koma í veg fyrir að ventlarnir ofhitnuðu. Útblástur á blýi jók mjög blýmengun í heiminum og hann dreifðist með loftstraumum og úrkomu. Blýmengun hefur farið hratt minnkandi á undanförnum árum. Mestmegnis vegna þess að hætt var að nota blýbætt bensín en líka vegna aukinnar áherslu á rétta förgun og endurvinnslu bifreiðaparta og raftækja sem innihaldið geta blý.
Í ljósi þess hve skaðlegir rafgeymar eru náttúrunni séu þeir ekki rétt meðhöndlaðir og hversu auðvelt er að endurvinna þá til gagns og skaðleysis er engin ástæða til annars en að gera það. Enda eru fáar vörur í heiminum endurunnar í jafn háu hlutfalli og rafgeymar bíla. Í Bandaríkjunum var hlutfallið 99% árið 2010. Það er hærra hlutfall en stál en 88% af framleiddu stáli í Bandaríkjunum er endurunnið. 80% af daglöðum og 70% af skrifstofupappír.
Hjá Olís tökum við glöð við eldri rafgeymum þegar við þjónustum bílinn þinn og skiptum út gömlum geymum fyrir nýjan. Rafgeymunum er safnað saman á þjónustustöðvum Olís og þeim komið til endurvinnslu.
