Almennir viðskiptaskilmálar heildsölu Olís á eldsneyti
Skilmálar þessir gilda um sölu Olíuverzlunar Íslands hf. (Olís), kt. 500269-3249, Katrínartúni 2, Reykjavík, á eldsneyti til endurseljenda. Um er að ræða almenna skilmála sem gilda í heildsöluviðskiptum en um verð og afhendingu fer eftir nánara samkomulagi. Verður Olís í skilmálum þessum nefnt seljandi og viðsemjandi Olís í skilmálum þessum nefndur kaupandi. Skilmálar þessir gilda um viðskipti við alla nýja endurseljendur á eldsneytismarkaði. Með nýjum aðila eða nýjum endurseljanda í viðskiptaskilmálum þessum er átt við aðila sem ekki hefur stundað innflutning, heildsölu eða geymslu á eldsneyti eða eru í eigu aðila sem hefur annast slíka starfsemi.
Mat á kaupanda
Sérstakur starfsmaður, heildsölutengiliður, annast samskipti við endurseljendur vegna heildsöluviðskipta og fyrirspurna um slík viðskipti. Nýir endurseljendur skulu beina öllum samskiptum vegna þessa til heildsölutengiliðar.
Þegar fyrirspurn um heildsöluviðskipti berst til heildsölutengiliðar Olís skal hann í upphafi meta hvort væntanlegur kaupandi teljist nýr endurseljandi í skilningi skilmála þessara. Við mat sitt skal heildsölutengiliður óska eftir gögnum um kaupanda, forráðamenn kaupanda, stjórnarmenn og alla hluthafa væntanlegs kaupanda, sem og hluthafa þeirra. Skal heildsölutengiliður með þessu kanna hvort viðkomandi kaupandi uppfylli skilyrði þess að teljast nýr endurseljandi. Kaupandi telst endurseljandi ef hann kaupir eldsneyti í eigin nafni og í eigin reikning og endurselur til þriðja aðila, sem er endanotandi eldsneytis, án aðkomu heildsölu Olís. Aðili sem kaupir inn í umboði og/eða í nafni þriðja aðila telst samkvæmt þessu ekki vera endurseljandi. Að auki skal heildsölutengiliður kanna fjárhagslega stöðu kaupanda.
Heildsölutengilið er óheimilt að stofna til viðskipta við viðkomandi kaupanda ef ofangreindu ferli er ekki fullnægt og/eða viðkomandi kaupandi afhendir ekki þau gögn sem heildsölutengiliður telur nauðsynleg til að sinna skyldu sinni samkvæmt ofangreindu. Sama gildir um aðila sem ekki reynist vera endurseljandi, er á sakaskrá eða stenst ekki skilyrði Olís um fjárhagslega stöðu.
Eldsneyti - Verðtilboð
Heildsölutengiliður Olís gerir hugsanlegum kaupendum sem leita eftir viðskiptum verðtilboð á viðskiptalegum grunni í samræmi við aðstæður á hverjum tíma. Heildsöluverð skal miða við allan kostnað við að selja eldsneytið, þ.m.t. innflutningsverð, álag birgja, almennt vörugjald, kolefnisgjald, vörugjald hafnar, virðisaukaskatt, rýrnun, dreifingu, bætiefni, fjárbindingu vegna birgða og krafna svo og annan sannanlegan kostnað vegna heildsölu til þess kaupanda sem um ræðir. Kaupandi getur óskað eftir tilboði í viðvarandi viðskipti. Er seljandi skuldbundinn til þess að haga heildsöluverðlagningu sinni með tilteknum hætti vegna sáttar sem gerð var við Samkeppniseftirlitið þann 11. september 2018.
Tilboð seljanda í viðskipti skal grundvallast á skuldbindingu kaupanda um kaup á tilteknu magni af eldsneyti yfir tiltekið tímabil og er heildsölutengilið skylt að gæta trúnaðar um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar kaupanda. Forsenda fyrir viðskiptakjörum seljanda eru háð því að kaupandi kaupi a.m.k. það magn sem kaupandi hefur skuldbundið sig til að kaupa enda byggja kjörin á því hagræði sem hlýst af umræddum viðskiptum. Það magn sem kaupandi kaupir er miðað við jafna dreifingu heildarmagns yfir árið nema annað sé tekið fram. Skal sérstaklega samið um afhendingarmáta.
Seljandi lofar að selja og afhenda kaupanda það magn af fljótandi eldsneyti sem kaupandi hefur óskað eftir og skuldbundið sig til að kaupa, á umsömdu verði. Komi upp ófyrirséðar breytingar frá umsömdu magni þannig að magnminnkun nemur 10% eða meira getur seljandi endurskoðað verð miðað við sömu forsendur og lýst er að framan. Skal seljandi tilkynna kaupanda um verðbreytinguna með hæfilegum fyrirvara, og tekur breytt verð til þess magns sem ekki hefur verið afhent. Með sama hætti getur kaupandi farið fram á endurskoðun á kjörum óski hann eftir að kaupa meira magn en upphafleg var áætlað.
Öll verð skulu miðuð við meðaltal á heimsmarkaðsverði eldsneytis og meðalgengi Seðlabankans í krónum gagnvart Bandaríkjadollar. Skal verðið umreiknað í krónur fyrir hvern lítra eldsneytis. Seljandi mun reikningsfæra selt magn samkvæmt stöðluðum einingum líkt og tíðkast á markaðnum almennt nema samkomulag verði um annað.
Seljandi greiðir þau olíugjöld sem honum ber samkvæmt gildandi reglum. Mun seljandi innheimta samsvarandi gjöld af kaupanda. Komi til þess á samningstímanum að skattar og gjöld á eldsneyti taki breytingum skal söluverð breytast til samræmis við þær breytingar.
Áður en samkomulag er gert um einstök viðskipti, skal liggja frammi tafla fyrir hverja tegund eldsneytis sem sýnir nákvæman útreikning og einingarverð þeirrar tegundar sem samið er um og skal sú tafla ná sex mánuði aftur í tímann. Skal umrædd tafla/töflur vera hluti af samningi milli kaupanda og seljanda og skulu samningsaðilar árita töfluna/töflurnar með þeim formerkjum, að sami skilningur sé á umræddri töflu og útreikningum. Skal taflan innihalda alla þá liði sem mynda heildsöluverð seljanda.
Gæði og afhending
Um gæði eldsneytis skal farið eftir þeim stöðlum sem í gildi eru hverju sinni varðandi þær eldsneytistegundir sem seljandi selur.
Sérstaklega skal samið um um afhendingu á eldsneyti til kaupanda í einstökum viðskiptum og þarf tegund dreifingar og afhendingarstaður að liggja fyrir áður en seljandi gefur mögulegum kaupanda tilboð í viðskiptin. Áhættuskipti fara fram fram þegar eldsneyti fer úr vörslum seljanda til kaupanda.
Yfirlit og reikningar
Yfirlit og frumrit reikninga eru send til kaupanda einu sinni í mánuði nema samið sé um annað. Greiðslukjör skulu vera þannig að reikningar skulu greiddir þremur (3) dögum fyrir umbeðinn afhendingardag eldsneytis. Seljanda er heimilt að breyta ofangreindum fyrirframgreiðslutíma verði breytingar á greiðslukjörum seljanda frá eigin birgjum.
Vanefnd
Nú greiðir kaupandi ekki fyrir úttektir á gjalddaga og er seljanda þá heimilt að stöðva alla afhendingu vöru og/eða hætta að þjónusta kaupanda þá þegar. Hætti seljandi að veita þjónustu skal honum ekki skylt að hefja afgreiðslu á ný nema kaupandi greiði útistandandi skuld eða leggi fram tryggingu fyrir greiðslu sem seljandi metur fullnægjandi. Skal kaupandi greiða hæstu heimilu dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags komi til greiðslufalls.
Skal seljanda heimilt að segja upp öllum viðskiptum við kaupanda komi upp veruleg vanefnd. Greiði kaupandi ekki reikninga samkvæmt greiðslukjörum oftar en þrisvar sinnum á samningsímanum, og hamlar þannig afhendingu, telst það alltaf veruleg vanefnd.
Force Majeure
Komi til styrjaldar, náttúruhamfara, verkfalla eða farist olíuskip á vegum seljanda svo að seljandi getur ekki staðið við afhendingu eldsneytis til kaupanda, þá skapar það seljanda ekki skaðabótaskyldu gagnvart kaupanda. Komi til atvika sem ákvæði þetta tekur til, skal seljandi þó gera allt sem í hans valdi stendur til að útvega kaupanda eldsneyti eins fljótt og kostur er.
Trúnaður
Aðilar skulu gæta trúnaðar um viðskipti og ekki upplýsa um þau nema það leiði af lagafyrirmælum, sé nauðsynlegt vegna viðskiptanna eða leiði að öðru leyti af eðli máls.
Framsal
Seljanda skal heimilt að fela öðru félagi í sinni eigu framkvæmd samnings við kaupanda enda geti það fullnægt þeim skyldum sem seljandi tekst á hendur með fullnægjandi hætti. Skal kaupanda heimilt að framselja samninginn til annars félags innan sömu félagasamstæðu að fenginni heimild seljanda.
Uppsagnarákvæði
Seljandi áskilur sér rétt til þess að marka samningi aðila ákveðinn gildistíma og skulu áætlanir kaupanda taka mið af þeim gildistíma.
Áskilnaður
Seljandi áskilur sér rétt til þess að fara fram á að kaupandi sýni fram á fullnægjandi heimildir sínar og leyfi til endursölu á eldsneyti sem og gildar tryggingar eftir því sem þörf er á vegna starfsemi hans.
Breytingar á skilmálum
Seljandi áskilur sér rétt til þess að breyta skilmálum þessum eftir því sem efni standa til. Mun seljandi tilkynna kaupendum um breytingar og taka þær gildi við tilkynninguna.
Samkomulag um viðskipti
Skal gerður samningur um viðskiptin í tveimur samhljóða eintökum þar sem hvor samningsaðili heldur sínu frumeintaki. Skulu skilmálar þessir gilda um viðskiptin en samið skal um verð og afhendingu sérstaklega í einstökum samningum.
Lögsaga
Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Komi upp ágreiningur milli aðila sem ekki verður jafnaður skal heimilt að bera hann undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Lower your travel costs with the discount-key
Get your discount card at the next Olís station

Index vatnsþéttidúkar
Ný kynslóð endingargóðra einangrunardúka, auðveldir í ásetningu. Framleiddir til að draga úr vatnsálagi og hlífa húsþökum, bílastæðum, brúm og öðrum flötum eða hallandi steypuflötum sem þarf að vatnsverja.