Metaneldsneyti er 95–98% hreint metan, en það hefur verið notað á ökutæki á Íslandi frá árinu 2000.
Metan er mun umhverfisvænna en annað eldsneyti þar sem mengun er töluvert minni og hávaði frá metanknúnum bifreiðum sömuleiðis. Koltvísýringur myndast við brennslu metangass í bílvél en þá er verið að flytja koltvísýring, sem hefði hvort eð er orðið til á urðunarstaðnum, út í andrúmsloftið. Heildaraukning koltvísýrings í andrúmslofti er því engin og á móti kemur líka að koltvísýringur sem hefði myndast í venjulegri bifreið sparast. Þessi sparnaður er um það bil 260 g á hvern km. Með því að brenna metaninu í ökutækjum dregur einnig úr gróðurhúsaáhrifum þar sem óbrunnið metangas hefur yfir tuttugufalt meiri áhrif en koltvísýringurinn sem verður til við brunann.
Losun útblástursefna er töluvert minni við brennslu metans en bensíns eða díselolíu. Koltvísýringur er 20% minni í metanbílum en venjulegum bílum.
Notkun metans sem ökutækjaeldsneytis dregur ekki einungis úr útblæstri heldur hefur notkun þess ýmsa aðra kosti. Stærri ökutæki eins og vörubílar og rútur eru t.d. hljóðlátari með metani en díselolíu. Metanökutæki henta því afar vel í þéttri miðborgarumferð, t.d. sem strætisvagnar, sorpbílar eða götusópar.