Viðskiptaskilmálar OLÍS um útleigu olíutanka
1. ALMENNT
Viðskiptaskilmálar þessir gilda um leigu OLÍS á olíutönkum til viðskiptamanna sinna, nema um annað sé samið með skriflegum hætti. Ákvæði skilmálanna eru því ófrávíkjanleg nema sérstakt skriflegt samkomulag takist um annað.
OLÍS fer í starfsemi sinni eftir gildandi lögum, reglugerðum og reglum.
2. ÚTLEIGA OLÍUTANKA OG SKILMÁLAR
OLÍS leigir út til viðskiptamanna sinna, leigutaka, olíutanka af ýmsum stærðum. Sérstök gjaldskrá, sjá hér til hliðar, segir til um stærðir tankanna og mánaðarlegt leigugjald fyrir þá, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Þegar viðskiptamaður óskar eftir að fá olíutank leigðan þá gilda viðskiptaskilmálar þessir um leiguna. Með því að taka við olíutankinum er viðskiptamaður að samþykkja skilmála þessa, sem staðfestist enn fremur við greiðslu fyrsta leigureiknings.
Með leigðum olíutanki fylgir dæla, slanga og eldsneytisbyssa. Leigutaki sér um á eigin kostnað að endurnýja þessi áhöld, eftir þörfum, meðan hann hefur olíutankinn á leigu.
OLÍS afhendir viðskiptamanni olíutankinn samkvæmt nánara samkomulagi. Við lok leigutíma skuldbindur leigutaki sig til að skila hinu leigða til OLÍS.
Sé olíukerra skráningarskyld ber leigutaki ábyrgð og kostnað af því að hin skráningarskylda olíukerra sé skoðuð af þar til bærum aðilum á réttum tíma.
Leigusamningur er ótímabundinn og gildir frá afhendingu olíutanks. Leigufjárhæð er hlutfallsleg innan mánaðar, ef tankur er ekki afhentur við mánaðamót. Leigutaki getur hvenær sem er skilað hinum leigða olíutanki til OLÍS og fellur samningurinn þá niður.
Leigutaki lofar að fara vel með hið leigða. Leigutaki ber ábyrgð gagnvart OLÍS ef hið leigða er skemmt eða umgengni við hið leigða er óforsvaranleg. OLÍS áskilur sér rétt til skaðabóta úr hendi leigutaka við slíkar aðstæður.
Leigutaka er óheimilt að framleigja olíutank í eigu OLÍS eða lána hann öðrum.
OLÍS getur sagt upp leigusamningnum. með eins mánaða fyrirvara, nema leigugjöld séu í vanskilum, en í því tilviki getur OLÍS rift samningnum fyrirvaralaust og sótt hið leigða til leigutaka.
Leigutaki skuldbindur sig til að nota einvörðungu eldsneyti frá OLÍS á hinn leigða olíutank. Ákvæði þetta er ákvörðunarforsenda af hálfu OLÍS og heimilar viðskiptamaður OLÍS að rifta leigusamningnum fyrirvaralaust, ef sannreynt er að leigutaki kaupi olíu frá öðrum eldsneytissölum á hinn leigða olíutank.
Leigufjárhæð er innheimt mánaðarlega í lok hvers mánaðar fyrir næstliðinn mánuð.
Frá og með 1. mars 2023 gilda viðskiptaskilmálar þessir jafnframt um alla olíutanka sem OLÍS hefur lánað viðskiptavinum sínum fram til þess tímamarks.
3. VIRÐISAUKASKATTUR
Reikningar sem OLÍS gerir viðskiptamönnum sínum samkvæmt skilmálum þessum bera virðisaukaskatt sem leggst ofan á þóknun samkvæmt gjaldskrá félagsins.
4. GJALDSKRÁ, REIKNINGAR OG INNHEIMTA
Viðskiptamönnum OLÍS samkvæmt skilmálum þessum eru gerðir mánaðarlegir reikningar á grundvelli gjaldskrár OLÍS, sem tekur breytingum í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs. Miðast mánaðarleg leigufjárhæð við gildandi gjaldskrá við gerð reikninga. Gjalddagi reikninga er útgáfudagur þeirra og eindagi 10 dögum síðar. Athugasemdir vegna útgefinna reikninga skulu berast OLÍS innan 10 daga frá útgáfudegi annars teljast þeir samþykktir.
Hafi reikningur ekki verið greiddur á eindaga áskilur OLÍS sér rétt til að reikna dráttarvexti á útistandandi fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við gildandi lög um vexti og verðtryggingu.
Hafi viðskiptamaður ekki greitt reikning á eindaga fær hann sent ítrekunarbréf til áminningar um ógreiddan reikning. Ef reikningur er ekki greiddur eða brugðist við ítrekunarbréfinu með öðrum hætti má viðskiptamaður búast við því að krafan verði send til innheimtu með tilheyrandi kostnaði sem viðskiptamanni ber að greiða.
5. UPPLÝSINGAR UM VIÐSKIPTAMENN
OLÍS er heimilt að fletta viðskiptamönnum sínum upp í vanskilaskrá vegna væntanlegra eða yfirstandandi reikningsviðskipta enda hafi OLÍS lögvarða hagsmuni af slíkri uppflettingu. Jafnframt er uppfletting í vanskilaskrá heimil ef hlutaðeigandi viðskiptamaður kemur fram í vanskilavakt eða verið er að innheimta hjá honum gjaldfallnar kröfur.
Þegar persónulegar upplýsingar eru skráðar um viðskiptamenn fer OLÍS að lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga varðandi örugga vistun og meðferð slíkra upplýsinga.
6. VANEFNDIR OG VANEFNDAÚRRÆÐI
Til vanefndar af hálfu viðskiptamanns teljast m.a. brot á skilmálum þessum. Komi til vanefndar af hálfu viðskiptamanns áskilur OLÍS sér rétt til að rifta leigusamningi aðilia og sækja hið leigða til viðskiptamanns. Þess skal þó ávallt gætt að hlutaðeigandi fái svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og gera ráðstafanir til að útvega sér olíutank frá 3ja aðila.
Óski viðskiptamaður ekki lengur eftir leiguþjónustu OLÍS, þá skilar hann hinu leigða til OLÍS og lýkur þar með samningssambandinu.
7. ÁBYRGÐ
OLÍS ber ábyrgð á að hið leigða sé vara sem gagnist viðskiptamanni til að geyma eldsneyti. OLÍS ber ábyrgð á, samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, að hið leigða sé ekki haldið hættulegum göllum.
Viðskiptavinur/leigutaki sér um daglegt eftirlit með olíutanki þeim sem hann leigir. Hefur eftirlit með hugsanlegum leka og eftirlit með að búnaður sé í lagi. Verði leki, þá ber leigutaki ábyrgð á að þrífa upp olíu og því tjóni sem að umhverfið verður fyrir. Leigusali ber ábyrgð á olíutanknum.
Kröfum viðskiptamanna um bætur fyrir meint fjárhagstjón er tengjast hinu leigða skal ávallt beina að OLÍS sjálfu.
Hugsanleg umsamin skaðabótaskylda OLÍS vegna hins leigða er þó aldrei hærri en ársleiga fyrir hið leigða.
8. TRÚNAÐUR
OLÍS er bundið trúnaði um öll gögn og upplýsingar sem frá viðskiptamönnum OLÍS stafa og munu ekki upplýsa um efni slíkra upplýsinga nema viðskiptamaður óski þess eða OLÍS sé skylt að veita slíkar upplýsingar samkvæmt lögum.
9. LÖGSAGA OG VARNARÞING
Viðskiptaskilmálar þessir lúta íslenskum lögum. Ágreining sem kann að rísa milli OLÍS og viðskiptamanna skulu aðilar leitast við að leysa með samkomulagi. Ef ekki næst samkomulag skulu ágreiningsmál rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Leiga: Nýir plast tankar
Olíukar, 430/460 ltr. Verð 5.900 kr. pr. mánuð m.vsk.
Olíutankur að 1500 ltr, Verð 4.900 kr. pr.mánuð m.vsk.
Olíutankar 1500 til 2500 ltr, Verð 5.400 kr. pr.mánuð m.vsk.
Olíutankar stærri en 2500 ltr samkvæmt nánara samkomulagi.
Leiga: Notaðir stáltankar
Olíutankur að 1100 ltr, Verð 2.900 kr. pr.mánuð m.vsk.
Olíutankur 2200 ltr, Verð 3.500 kr. pr.mánuð m.vsk.
Olíutankar stærri en 2500 ltr samkvæmt nánara samkomulagi.
Sala: Olíutankar plast og járn
Olíukar plast 430 ltr. Verð 310.000 kr. m.vsk.
Olíutankur plast 1.200 ltr. Verð 590.000 kr. m.vsk.
Olíutankur járn 1100 ltr. 250.000 kr. m.vsk.
Olíutankur Járn 2200 ltr. 300.000 kr. m.vsk.
Stærri tankar samkvæmt nánara samkomulagi.
Sala: Gasolíudælur, slöngur og byssur
Gasolíudælur. 12v, 24v og 220v. Verð 24.000 til 95.000 eftir gerðum/afköstum.
Gasolíuslöngur. ¾“ Verð 23.000 kr.m.vsk og 1“ Verð 32.000 kr.m.vsk.
Gasolíubyssur. Verð 18.900 kr. m.vsk.
Ath. Leiga á tönkum samkvæmt gjaldskrá þessari m.v. notkun pr.ár að lágmarki 6.000 ltr.
Framangreind verð eru í gildi 1. mars 2023 og geta tekið breytingum án fyrirvara.
Sendið fyrirspurnir á pontun@olis.is eða í síma 515-1100