Olís og Pikkoló
15. okt. 2025
Nýjasta viðbót við þjónustustöðvar Olís eru kældar afhendingarstöðvar Pikkoló, sem auka aðgengi fólks að mat- og dagvörum.
Olís og íslenska nýsköpunarfyrirtækið Pikkoló hafa gert með sér samstarfssamning um uppbyggingu kældra afhendingarstöðva fyrir matvæli á þjónustustöðvum Olís. Fyrstu þrjár Pikkoló stöðvarnar rísa á þjónustustöðvum Olís við Gullinbrú, í Garðabæ og við Ánanaust. Lausn Pikkoló hefur notið mikilla vinsælda og velta fyrirtækisins tvöfaldaðist milli áranna 2023 og 2024. Þessar þrjár nýju afhendingarstöðvar munu reynast góð viðbót, bæði fyrir Pikkoló og Olís en áætlað er að þær opni vorið 2026.
Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdarstjóri Olís:
„Við erum jafnt og þétt að auka í þjónustu til okkar viðskiptavina og nú tökum við skrefið lengra og horfum til framtíðar, með því að þjónusta einnig fólk sem kýs bíllausan lífstíl eða almenningssamgöngur. Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi með Pikkoló þar sem þau eru að gera mjög skemmtilega hluti og við hlökkum til frekari uppbyggingar með þeim í framtíðinni. Í dag erum við í fararbroddi í afhendingu pakka sem verslaðir eru á netinu – í gegnum samstörf okkar með Dropp, DHL og TVG. Því er þessi lausn Pikkoló frábær viðbót við framtíðarsýn okkar- að gera Olís að þægindamiðstöðvum framtíðarinnar.“
Ragna M. Guðmundsdóttir, stofnandi og framkvæmdarstjóri Pikkoló:
„Samstarfið við Olís er mikilvægt skref í uppbyggingu á sjálfbæru dreifikerfi fyrir matvöruverslanir á netinu. Með því að tengja Pikkoló við þjónustustöðvar Olís erum við skrefi nær því að vera ávallt í nærumhverfi fólks en meginmarkmið Pikkoló er að allir geti nálgast fjölbreyttar og ferskar matvörur í nærumhverfi sínu með einföldum, ódýrum og umhverfisvænum hætti. Við erum svo sannarlega spennt fyrir samstarfinu og hlökkum til að sjá hvert það leiðir okkur.“
Um Pikkoló
Pikkoló er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem tengir matvöruverslanir á netinu við kældar afhendingarstöðvar sem staðsettar eru í nærumhverfi fólks. Viðskiptavinir geta með einföldum hætti valið að sækja matarinnkaupin í sína næstu Pikkoló-stöð, sem er bæði kæld og opin allan sólarhringinn.
Viðskiptavinir þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að vera heima til að taka á móti pöntunum, heldur geta nálgast þær í næstu Pikkoló-stöð þegar þeim hentar. Lausnin er ekki aðeins þægileg fyrir viðskiptavini, heldur er hún einnig sjálfbærari fyrir verslanir, þar sem hægt er að afhenda margfalt fleiri pantanir á klukkustund, sem bæði sparar kostnað og minnkar kolefnisspor við dreifingu.
Lausn Pikkoló hefur reynst einstaklega vel fyrir þjónustur eins og Eldum Rétt, sem þurfa að afhenda mikinn fjölda pantana á stuttum tíma en sífellt fleiri viðskiptavinir velja nú að sækja matarpakkana sína frekar hjá Pikkoló í stað þess að fá þá heimsenda.
Markmið samstarfsins
Markmið samstarfsins er að gera fólki kleift að nálgast ferskar og fjölbreyttar mat- og dagvörur á einfaldan, ódýran og umhverfisvænan hátt, en kældu afhendingarstöðvarnar eru aðgengilegar allan sólarhringinn. Verkefnið fellur vel að framtíðarsýn beggja aðila og saman ætla Olís og Pikkoló að einfalda fólki lífið þegar kemur að matarinnkaupum fyrir heimilið og bjóða upp á sjálfbæra leið í dreifingu matvæla sem verslað er á netinu.


